149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:54]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Sjáum við ekki vísbendingarnar nú þegar með stórauknum áhuga erlendra fjárfesta á íslenskum orkufyrirtækjum á vatnsréttindum hér? Og það nýjasta, þessi mikla eftirspurn eftir því að reisa svokallaða vindmyllugarða? Ég hef reyndar ekki verið hrifinn af þessum vindmyllum af ýmsum ástæðum, en góður maður og fróður í Eyjafirði telur að ég eigi nú að gefa vindmyllum tækifæri og þá auðvitað skoðar maður þetta í því ljósi, og alltaf þegar maður fær ábendingar frá skynsömu fólki þá gerir maður það. En hvað sem því líður ber allt að sama brunni. Það er mjög vaxandi áhugi á því að fjárfesta í orkukostum á Íslandi. Er ekki óhætt að álykta sem svo að þeir aðilar geri ráð fyrir verðlagshækkunum og að geta selt á stærri markað fremur en svo að þeir (Forseti hringir.) ætli sér að halda sig eingöngu við innlenda markaðinn?