149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:55]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Ég tel afskaplega mikilvægt að halda Landsvirkjun, sem hefur á hendi langmest af þeirri orku sem er beisluð hérlendis, í eigu þjóðarinnar, ef svo má orða það, að hún fari ekki í hendur einstaklinga eða eins og oft er, auðmanna.

Við sáum það fyrir bankahrunið, löngu fyrir bankahrunið, að þegar bankar voru einkavæddir og jafnvel þótt þeir væru með dreifða eignaraðild þá voru hlutirnir ansi fljótir að gerast og eins og hendi væri veifað komnir í eigu örfárra fjársterkra aðila. Ég tel einhlítt að ef við færum þessa leið með orkuna myndi það sama gerast. Þess vegna þurfum við að standa vörð og það er hlutverk okkar stjórnmálamanna að standa vörð um þá auðsuppsprettu sem gæti komið almenningi til hagsbóta eins og orkan er, eins og fiskurinn er, og auðlindir landsins eru. Það er fyrst og fremst okkar hlutverk að standa vörð um það. Það eru nægir til að standa vörð um hagsmuni fjársterkra og við eigum að vera á hinum endanum.

Við eigum að hlusta eftir skoðunum almennings og einmitt í þessu máli, vegna ótta almennings við þriðja orkupakkann, herra forseti, við verðum að hlusta eftir honum, í hverju hann er fólginn. Hvað er það sem fólk óttast? Fólk óttast einmitt þetta, að missa tökin á því sem byggt hefur verið upp í landinu. Og við eigum að hlusta. Við eigum ekki að skella skollaeyrum við skoðunum almennings.