149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:02]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ástæðan fyrir að ég nefni þetta er einmitt sú — og ég fer nánar í þessa grein hér síðar í umræðunni — að þess er getið að áhyggjur manna á Íslandi séu þær að þetta geti hækkað rafmagnsverð til neytenda, þ.e. þessi útflutningur á orku sem verið er að ræða um. Það er talað um þessi miklu tækifæri sem Ísland hefur, talað um að þessar djúpboranir eigi að byrja á næsta ári, 2020. En það er líka tekið fram að gæta þurfi fyllsta öryggis við þessar boranir, því að Ísland sé eldfjallaeyja og menn vilji ekki koma af stað einhvers konar jarðhræringum með því að bora svona djúpt í jarðskorpuna. En þetta er mjög athyglisverð grein (Forseti hringir.) og mér þótti rétt að nefna hana vegna þess að hv. þingmaður var með mjög gott sögulegt yfirlit yfir orkuöflun okkar.