149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:04]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Karli Gauta Hjaltasyni fyrir ræðu sína. Þetta er skemmtilegt samhengi og áhugavert að heyra þá sögu sem þarna er samantekin um þróun virkjana í landinu öllu. Mig langar í þessu samhengi til að heyra sjónarmið þingmannsins gagnvart þeirri miklu sókn sem er nú um stundir í leyfi til að byggja upp svokallaða vindmyllugarða, þá sérstaklega á vestanverðu landinu, og mikinn fjölda smávirkjana sem eru skilgreindar minna en 10 MW. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki með fjöldann á hreinu, en hann er allnokkur. Ég spyr hvort þingmaðurinn hafi reynt að setja þetta í samhengi, það uppsetta afl samkvæmt þeim hugmyndum sem nú eru uppi í vindmyllum annars vegar og smávirkjunum hins vegar samanborið við þá upptalningu sem hann fór yfir hér áðan, hversu mikið afl er mögulega í pípunum út frá þessum nýju verkefnum í vindmyllugörðunum ef af verður og síðan smávirkjunum. Er þetta magn sem samsvarar mögulega drjúgum hluta allrar þeirrar uppbyggingar sem átti sér stað á meginhluta síðustu aldar? Miðað við þá viðbót sem hefur orðið síðan um aldamót segir mjög grófur hugarreikningur mér að með þeim nýju verkefnum sem eru í undirbúningi í þessum tveimur geirum, eða á þessum tveimur sviðum, séum við að bæta (Forseti hringir.) umtalsvert við orkuframleiðslugetuna og ítreka ég að ég er ekki andsnúinn raforkuframleiðslu.