149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:07]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir hugleiðingarnar og spurninguna. Það er alveg ljóst af umræðunni hér og upptalningu hv. þingmanns að Ísland er auðugt land af orku; hún virðist hvarvetna vera. Hann minntist á vindorkuna og vindmyllugarða. Ef við tökum Fljótsdalsvirkjun, sem er 690 MW, þarf 350 vindmyllur af þeirri stærð sem við sjáum á Búrfellsheiði hér austur frá — þar eru tvær vindmyllur — til ná sama afli, herra forseti. Ég held að það yrði ansi mikil sjónmengun af því. Þær eru bæði háar og visst bil þarf að vera á milli þeirra þannig að það tæki yfir ansi stórt landsvæði ef þú ætlar að ná afli á við Fljótsdalsvirkjun út úr slíkum vindmyllugarði.

Nú fleygir tækninni fram og vindmyllurnar stækka, þær hækka. Það er þá kannski hægt að ná þessu afli út úr færri vindmyllum en hærri. Það er alveg ljóst að það verður alltaf mjög mikil sjónmengun af þessu og þess vegna þarf að vanda til verka núna þegar þessar vindmyllur eru ekki komnar hingað að neinu ráði og eftirsókn eftir þeim er ekki alveg byrjuð. Þess vegna þurfum við að vanda til verka og setja hér á Alþingi, á löggjafarsamkomunni, lagaumhverfi áður en þetta hellist yfir okkur en ekki eftir á.