149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:09]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Karli Gauta Hjaltasyni fyrir svarið. Skildi ég það rétt að hv. þingmaður væri undir lok andsvars síns að benda á það sem ýmsir hafa bent á í greinaskrifum, og einhverjir eflaust í ræðum fyrr í þessari umræðu, að orkustefnuna vanti hér hjá okkur sem auðvitað ætti að vera grundvöllur þess hvernig á öllum málum, m.a. þeim sem hér er fjallað um, er haldið? Það væri áhugavert að heyra sjónarmið hv. þingmanns í þessum efnum, hvort slíkt grunnplagg ætti að vera til grundvallar ákvarðanatöku, grunnplagg sem við höfum ekki unnið í stjórnkerfinu eða pólitíkinni. Ég vildi gjarnan fá að heyra afstöðu þingmannsins til þess hvort ég hafi skilið hann rétt að það væri í raun það sem hann væri að kalla eftir og benda á að vantaði sárlega.