149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:10]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Spurt er hvort orkustefnuna vanti að þessu leyti til — ég myndi frekar vilja kalla þetta andvaraleysi. Nokkuð hefur orðið vart við pressu varðandi uppsetningu vindmylla. Áhuginn er mjög vaxandi, sérstaklega síðustu missiri, þannig að þetta er að verða að veruleika. Ég hef átt samræður við hæstv. ráðherra um þessa hluti og kallað eftir því að sett verði heildarlög um efnið. Ég hef ekki séð þau. Ég vona að þau séu væntanleg þannig að hægt sé að útbúa lagaumhverfi um málið áður en þetta verður að veruleika en ekki eftir á. Sama á við um aðra hluti eins og sjávarfallavirkjanir. Einnig á það sama við um virkjun ölduafls, því að eins og þetta er í dag þá gæti fólk, ef það ætti landið og jörðina, bara sett þetta upp.