149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:12]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Ég ætla aðeins að hjakka áfram í þessu, ég ætla að nota orðið andvaraleysi, ég heyrði það orð í ræðu fyrir stuttu. Ég hef held ég ekki notað það orð í mínum ræðum, en ég held að óhætt sé að segja eða velta fyrir sér hvort ákveðið andvaraleysi sé hér á ferðinni hjá stjórnarmeirihlutanum varðandi það sem koma skal í innleiðingum á orkupökkum eða reglum Evrópusambandsins og er ég þar að sjálfsögðu að vísa til fjórða orkupakkans. Nú hefur enginn stjórnarþingmaður stigið í pontu í svolítinn tíma og svarað neinu af því sem við höfum velt hér fram, eins og t.d. þeim spurningum varðandi fjórða orkupakkann sem ég hef haft hér uppi. Hafa þingmenn stjórnarmeirihlutans fengið einhverja kynningu á því hvað felst í fjórða orkupakkanum? Hafa þeir verið upplýstir um hvort í honum sé framhald á þróun þessarar ACER-stofnunar eða líkra stofnana? Er einhver þróun varðandi þau völd eða markmið sem þessi ACER-stofnun á að fylgja eftir? Þarf að hafa einhvern sérstakan vara á sér um stjórnskipuleg álitamál varðandi fjórða orkupakkann o.s.frv.?

Ástæðan fyrir því að ég tel þetta mikilvægt er sú að við sjáum t.d. frá Noregi að þar bíða menn spenntir eftir því, sumir hverjir í það minnsta, að Ísland klári þessa innleiðingu á þriðja orkupakkanum til að geta hafist handa við þann fjórða sem er í einhvers konar kynningu eða hefur verið kynntur í það minnsta fyrir stjórnvöldum þar. Nú vitum við að lagt var af stað með fjórða orkupakkann árið 2016. Það er búið að vinna töluvert í honum. Þetta eru átta gerðir og búið er að ljúka ferli innan Evrópusambandsins með a.m.k. fjórar af þessum átta. Hinum verður væntanlega lokið fljótlega. Er ekki ástæða til að staldra við og kynna sér hvað í þessum pakka felst áður en farið er áfram og þriðji pakkinn innleiddur, ég ætla að segja fyrirvaralaust vegna þess að fyrirvarinn sem er gerður er til heimabrúks, er ekki gagnvart Evrópusambandinu eða þessum innleiðingum því að við erum að fara að innleiða gerðirnar að fullu? Er það virkilega þannig að þingmenn stjórnarmeirihlutans ætla sér að loka augum og eyrum fyrir því að handan við hornið bíður framhald á innleiðingunum og þær liggja fyrir í öllum megindráttum? Fjórði orkupakkinn liggur fyrir í öllum megindráttum.

Skiptir það þessa þingmenn engu máli hvað kann að vera í þeim pakka? Skiptir það engu máli hvort þá sé framhald á valdaframsali Íslands? Skiptir engu máli að sá pakki kunni að reisa enn alvarlegri spurningar varðandi stjórnarskrána, valdaframsal? Er það virkilega þannig að enginn stjórnarþingmaður hafi áhuga á að fá þennan fjórða orkupakka krufinn?

Ég veit að meðal stjórnarþingmanna eru einstaklingar sem líta það mjög alvarlegum augum ef um er að ræða eitthvert framsal á valdi. Er ekki um að gera að þeir setjist nú niður með sínu fólki að segi: Er ekki rétt að við skoðum málið aðeins betur? Það er ekki þannig að það sé eitthvert leyndarmál með þennan fjórða orkupakka, alls ekki. Það kemur fram í svörum utanríkisráðuneytisins við spurningum mínum að einhvers konar kynning fyrir hagsmunaaðilum hefur verið sett í gang, í það minnsta er búið að mynda sérstakan starfshóp um hagsmunagæslu og samráð varðandi innleiðingu fjórða orkupakkans. Er ekki eðlilegt og í sjálfu sér ábyrgt af þingmönnum stjórnarmeirihlutans að setjast niður og segja: Við skulum fara þá leið að fá heildarmyndina áður en við samþykkjum þennan þriðja orkupakka þannig að heildarmyndin liggi fyrir, hver þróunin er varðandi þennan sameiginlega orkumarkað, þær reglur sem okkur ber að taka upp og þá þróun sem við munum þá vera neydd til að taka þátt í.