149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:27]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú verð ég að viðurkenna að ég hef ekki lesið þessa grein og er nú farinn að hallast að því að ég eigi ekkert að gera það miðað við þær lýsingar sem hafðar hafa verið uppi í ræðustól um innihald hennar. Margt virðist benda til þess að greinin sé fyrst og fremst skrifuð til að friða þann sem skrifar hana, ekki til þess að fara með rök fyrir okkur hin sem höfum efasemdir um að rétt sé að innleiða þennan pakka eins og hann lítur út í dag.

Hv. þm. Birgir Þórarinsson bendir hins vegar réttilega á þá verðþróun sem orðið hefur á rafmagni og hefur þingmaðurinn áður í ræðustól bent á eigin upplifun af því þegar orkupakki tvö var innleiddur hér á landi, hvaða áhrif það hafði á reikninginn á hans heimili suður með sjó, í Vogum á Vatnsleysuströnd, hvernig rafmagnskostnaður heimilisins hækkaði verulega eftir þá innleiðingu. Þingmaðurinn er ekkert einn um að hafa nefnt þetta við okkur aðra alþingismenn, það hafa fleiri á landinu gert. Hvort sem það er orkuverðið sjálft eða flutningurinn sem hefur hækkað hefur heildarreikningurinn hækkað, það er engin spurning um það. Þeir sem halda öðru fram eru vitanlega ekki — ja, við skulum orða það þannig að það sé þá verið að skauta létt yfir sannleikann í þessu öllu saman.

Ég held að það sé mikilvægt að við reynum að fá hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur í þingsalinn og í ræðustólinn til að geta spurt hana út í þessa grein. Hv. þingmaður sem ritar svona grein hlýtur að vilja koma hingað og rökstyðja mál sitt frekar. Þá væri e.t.v. hægt að spyrja þingmanninn út í það hvort hún hafi kynnt sér framhaldið af orkupakka þrjú, hvort greinin sem hún muni skrifa eftir orkupakka fjögur verði nákvæmlega sú sama, að þetta sé svo æðislegt og yndislegt.