149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:39]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil halda aðeins áfram umfjöllun minni um söluna á Hitaveitu Suðurnesja á sínum tíma. Söluna má rekja til þess að orkutilskipanir Evrópusambandsins, eitt og tvö, voru innleiddar hér. Það greiddi fyrir því að fyrirtækinu var skipt upp og það var síðan selt þrátt fyrir fögur fyrirheit stjórnmálamanna, bæjarfulltrúa í Reykjanesbæ. Sjálfstæðisflokkurinn var í meiri hluta á þessum tíma og seldi fyrirtækið til erlendra einkaaðila, fyrirtæki sem sveitarfélögin á Suðurnesjum höfðu byggt upp með myndarlegum hætti í áraraðir. Í stuttu máli er fyrirtækinu skipt upp í HS Orku og HS Veitur árið 2008, stuttu eftir að samþykktin á þessum orkupakka kemur, þ.e. orkupakka eitt og orkupakka tvö. Hitaveita Suðurnesja var, eins og áður segir, í eigu sveitarfélaga á Suðurnesjum og átti Reykjanesbær um 43% í félaginu en HS Orka endaði að lokum í höndum sænsks skúffufyrirtækis og í dag er HS Orka metin á 72 milljarða kr. Fyrirtækið var selt á sínum tíma fyrir rétt rúma 10 milljarða kr.

Eignarhluti Reykjanesbæjar var, eins og áður segir, 43% og svo áttu önnur sveitarfélög á Suðurnesjum hlut í fyrirtækinu. Íbúar í Reykjanesbæ eru um 18.000 og því má segja að hver bæjarbúi hafi átt eign fyrir u.þ.b. 2 millj. kr. í HS Orku ef bæjarfélagið hefði ekki farið í þessa vegferð þannig að fjögurra manna fjölskylda hefði því átt um 8 milljónir í þessu fyrirtæki. Það er gott að setja þetta í þetta samhengi til að sýna hversu háar upphæðir er um að ræða. Þetta hefur að langmestu leyti horfið í vasa erlendra eigenda, þessa skúffufyrirtækis sem síðan reyndist vera frá Kanada en hafði ekki leyfi samkvæmt Evrópurétti til að kaupa í þessu fyrirtæki og þess vegna var það stofnað innan Evrópska efnahagssvæðisins sem nokkurs konar skúffufyrirtæki með aðsetur í Svíþjóð. Þarna var farið á svig við lög og reglur hvað þetta varðar en þeir gengu þarna út með hagnað upp á u.þ.b. 20 milljarða kr.

Nú eiga Suðurnesjabúar ekkert orkufyrirtæki og arðurinn af þessu fyrirtæki er á bilinu 2–3 milljarðar á ári og nýtist sveitarfélögunum á þessu svæði ekkert. Í dag er fyrirtækið í eigu lífeyrissjóða sem eiga 46% og svo erlendra aðila sem eiga um 54% hlut.

Hvað segir þetta mál okkur? Þetta mál er sannarlega mikilvægt í þessari umræðu vegna þess að það segir okkur, herra forseti, og er gott dæmi um það, hvað getur gerst þegar stjórnvöld ana út í hluti án þess að hafa kannað möguleikana til hlítar, án þess að gera nákvæmar athuganir á þeim áhrifum sem innleiðing þessa orkupakka getur haft fyrir þjóðfélagið í heild sinni.

Orkupakki þrjú er einmitt áframhald þessarar vegferðar út í óvissu. Við vitum ekki hvernig þessi mál koma til með að þróast og getur það þá haft mjög slæm áhrif fyrir efnahagslega afkomu þjóðarinnar í náinni framtíð. Þegar að því kemur að sæstrengur verður lagður erum við komin á þennan sameiginlega markað. Það er alveg ljóst í mínum huga að það er verið að undirbúa jarðveginn fyrir það. Ég held að enginn geti neitað því. Það er ástæða fyrir því að fyrirtæki eins og Landsvirkjun og fleiri eru hlynnt því að sæstrengur verði lagður. Forstjóri fyrirtækisins hefur sagt að hann sé nær í tíma en við höldum og ég er alveg sammála forstjóranum í þeim efnum. Á þetta verður að horfa í ljósi þess að þetta er bara eitt skref áfram inn á þennan sameiginlega markað. (Forseti hringir.) Þegar sæstrengurinn kemur verður ekkert aftur snúið, þá erum við orðin hluti af þessu og við getum ekki breytt því.