149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:54]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni og tek undir með honum að ég fagna því að íslenskir lífeyrissjóðir skuli þó vera komnir þar með meiri hluta í fyrirtækinu. Ég fagna því en minni á að þessir erlendu aðilar hafa hagnast gríðarlega á þessari fjárfestingu sem hefur síðan farið úr landi.

Hv. þingmaður spyr um HS Veitur og það er þannig í lögum um veitufyrirtæki að þau verða að vera að lágmarki í 51% eigu opinberra aðila. Á sínum tíma þegar HS Veitur voru seldar var reynt að fara á svig við þetta að því leytinu til að Reykjanesbær selur sinn hlut í HS Veitum og það er einkaaðili sem á þá minni hluta í þessu en reynt var að fara á svig að því leytinu til að gert var svokallað hluthafasamkomulag um að ákvörðunarvaldið verði í raun og veru á endanum í eigu einkaaðila. Þetta var mjög sérstakur gjörningur á sínum tíma og menn höfðu miklar efasemdir um hann, en það má vel vera og kann að vera rétt hjá hv. þingmanni, ég þekki það ekki nákvæmlega, að hlutur einkaaðilans innan fyrirtækisins gangi kaupum og sölum og til standi að selja hann. Ég þekki það ekki, það kann að vera rétt hjá hv. þingmanni.

Kjarni málsins er sá að þegar fyrirtækið var selt skilaði það um 400 millj. kr. arði árlega og fyrirtækið var selt fyrir 2 milljarða. Það tók þessa einkaaðila fimm ár að ná kaupverðinu til baka og maður spyr: Hvers vegna í ósköpunum var verið að selja þetta fyrirtæki sem sveitarfélögin áttu? Þau áttu HS Veitur en seldu þennan hluta, sem var heimilað samkvæmt lögum, sem skilaði svona miklum arði til sveitarfélaganna. Maður skilur ekki svona fjármálagjörninga og veltir fyrir sér hvort (Forseti hringir.) einhverjir aðrir hagsmunir séu að baki sem hafa ekki komið fram.