149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:02]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og tek undir það með hv. þingmanni að sæstrengur mun koma. Aðilar sem þekkja mun betur til í þessum efnum, eins og forstjóri Landsvirkjunar, hafa sagt það og að hann sé nær okkur í tíma en við höldum.

En ef það eru tveir kostir hvað varðar sæstreng, hvort hann verði gerður með aðkomu ACER innan Evrópusambandsins eða án aðkomu Evrópusambandsins og þá bara í tvíhliða samkomulagi við Breta, hafa þeir sem vel þekkja til í þessum efnum sagt að það sé skárri kostur að gera tvíhliða samning við Breta vegna þess að þá höfum við miklu meira um þetta að segja. Þá erum við ekki búin að afsala okkur forræði yfir þessum málum eins og felst í innleiðingu orkupakkans þegar sæstrengur er kominn.

Hins vegar vitum við ekkert hvernig samkomulagið kemur til með að þróast milli Bretlands og Evrópusambandsins. Mér skilst að nú sé meiri hluti Breta, almenningur, á því að vilja vera áfram í Evrópusambandinu. Stjórnvöld í Bretlandi eru algjörlega búin að klúðra þessu ferli og eru orðin að hálfgerðu athlægi þjóða vegna þess hversu illa þau hafa staðið að því máli frá því að það var samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Kjarni málsins er að menn vita ekki hvernig þessu sambandi verður háttað og þess vegna gæti náðst einhvers konar samkomulag um það að ef Bretar færu út myndu þeir horfa fram hjá svona mikilvægum streng sem myndi síðan þjóna Evrópusambandinu og hann yrði á forræði Evrópusambandsins. Það vitum við ekki þannig að (Forseti hringir.) margir óvissuþættir eru í þessu máli.