149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:14]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir þetta andsvar. Ég hef einmitt velt þessu fyrir mér út af þeirri staðreynd að stjórnlagadómstóllinn kveður upp úrskurð sinn nú í haust og sá hópur sem hefur andæft þessum áformum hér heima hefur talað um að skynsamlegra gæti verið að bíða með ákvörðun fram á haustið. Ég hef velt því fyrir mér í hvaða stöðu Íslendingar verði ef svo fer að stjórnlagadómstóllinn í Noregi fellir þann úrskurð að innleiðing orkupakka þrjú í Noregi standist ekki norska stjórnarskrá. Ef við værum þá búin að innleiða þennan sama orkupakka og Norðmenn væru allt í einu úr leik og væru þá í sömu stöðu og við erum núna — hvar stöndum við þá, herra forseti?

Þetta atriði út af fyrir sig veldur mér nokkrum áhyggjum og er eitt púsl í viðbót. Eins og hér hefur komið fram undanfarin dægur, og ég hef orðað það nokkrum sinnum, finnst mér þessi umræða, og ég held að við séum fleiri um það, vera að dýpka. Það eru að koma fram ný púsl í þetta mál sem, alla vega að dómi þess sem hér stendur, gera málið enn verra, enn óæskilegra og gerir það enn óskiljanlegra að menn skuli vilja fara með málið í gegnum þingið, að næturlagi eins og hér kom fram, í þessum asa, vitandi t.d. þetta. Ég efast ekkert um að hæstv. utanríkisráðherra og starfsmenn hans og samverkamenn viti af þessu með norska stjórnlagadómstólinn. Samt keyra menn hér fulla ferð með þennan pakka og ætla að fara með hann í gegnum þingið. Mér er þetta óskiljanlegt.