149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:16]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er vissulega margt óskiljanlegt í þessu máli. Það er óskiljanlegt hvernig íslensk stjórnvöld hafa hvað eftir annað lýst vilja sínum til að spila frá sér samningsstöðu Íslands í þessu mikilvæga hagsmunamáli þjóðarinnar. En hvað varðar spurningu hv. þingmanns um það í hvaða stöðu við verðum ef norski stjórnlagadómstóllinn kemst að þeirri niðurstöðu að málið standist ekki stjórnarskrá Noregs þá hlýtur það að teljast niðurlæging fyrir íslensk stjórnvöld hafi þau þvingað málið hér í gegn án þess að huga tilhlýðilega að stjórnarskrárlegum áhrifum hér á landi. Maður getur eiginlega ekki annað en velt fyrir sér hvort íslensk stjórnvöld séu fyrir vikið orðin einhvers konar leiksoppar í þessu máli öllu, að taka það að sér að þvinga málið hér í gegn, þá væntanlega í trausti þess og þeirri von að norski stjórnlagadómstóllinn komist ekki að þeirri niðurstöðu að málið gangi of langt, gangi of mikið á stjórnarskrárvarinn rétt þessara EFTA-ríkja. Við höfum séð margt í þessu máli sem felur í sér öfuga forgangsröðun en það er undarlegt að íslensk stjórnvöld ætli að setja okkur í þá stöðu eða sjálf sig að þurfa að vonast eftir því að niðurstaða norska stjórnlagadómstólsins verði á bandi Evrópusambandsins en ekki þá Íslands og Noregs, sem eru með mjög sambærilegar stjórnarskrár. Það er óskiljanlegt eins og hv. þingmaður segir og það er ekki gott að við séum með ríkisstjórn sem nálgast málin með þeim hætti.