149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:19]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er einmitt rétt, það er einnig það að þessi ríkisstjórn skuli með þessum óskiljanlega hætti, þessum flausturslega hætti, þessum óábyrga hætti, keyra í gegn mál sem er sannarlega, samkvæmt þessari ágætu könnun sem ég vitnaði í áðan, í blóra við skoðanir meiri hluta þjóðarinnar. Það á sem sagt ekki að hlusta á meiri hluta þjóðarinnar í þessu máli og ríkisstjórnin ætlar þrátt fyrir þetta — nú geri ég ráð fyrir því að ríkisstjórnin eða fylgifiskar hennar lesi Bændablaðið og hafi séð þessa könnun og viti þess vegna hvernig þessi mál eru vaxin hér á Íslandi. Enn óskiljanlegra verður þetta mál og enn verra vegna þess að stjórnvöld vilja og ætla, virðist vera, að keyra þetta mál í gegnum þingið í þessu flaustri, að næturlagi, óábyrgt, óathugað, með óvissu í Noregi um sambærilegt mál, í andstöðu við íslensku þjóðina, meiri hluta hennar. Maður spyr sig af því að þetta er fráleitt eina málið núna undanfarandi þar sem stjórnvöld hafa gengið fram með mál hér í Alþingi sem eru vissulega í andstöðu við þjóðarvilja, þ.e. meiri hluta þjóðarinnar, og maður spyr: Er ekkert jarðsamband hjá þessari ríkisstjórn? Er hún bara hér í einhverju sílói? Hlustar hún ekki á neinn? Hlustar hún ekki á raddir fólksins? Hlustar hún ekki á fólkið hér fyrir utan þessa múra? Er þessi ríkisstjórn alveg firrt sambandi við þjóðina? Hlustar hún ekki?