149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:28]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Víst kann að vera að þetta sé eitthvert hálmstrá sem ríkisstjórnin heldur í eða bindur vonir við. En ég vildi samt benda á að uppbygging í orkugeiranum, eins og hefur svona flogið fyrir, hefur a.m.k. 5–10 ára meðgöngu myndi ég halda. Þá væri kannski nærtækara fyrir stjórnvöld að lagfæra það tjón sem þau ollu að hluta til sjálf með þeim síðustu atburðum sem urðu hér í flugmálum og ferðamannaþjónustunni, fyrir utan það að þrátt fyrir allt og með fyrirsjáanlegan samdrátt núna í ferðaþjónustunni sé ég ekki betur en að við séum samt líkleg til að fá hingað til landsins á þessu ári um 2 milljónir ferðamanna og í sjálfu sér held ég því fram og hef gert það nokkuð lengi að við séum fullhert að taka á móti þeim fjölda. Það eru hins vegar alls konar hlutir sem hægt er að gera til skamms tíma til að auka skilvirknina þar. Til dæmis er fyrirspurn sem hefur verið lögð fram af Miðflokknum um undanskot í Airbnb o.s.frv. enn einu sinni, þannig að hægt er að leiðrétta þessa hluti og laga þá að ýmsu leyti.

Eins og hv. þingmaður veit höfum við líka lagt fram fyrirspurnir um flugöryggi á Íslandi. Við viljum að hlúð sé að því fjöreggi sem við þó höfum. Ég sé í sjálfu sér ekki að orkuuppbygging eins og hún er núna í kortunum sem við sjáum sé skammtímalausn fyrir okkur, fyrir utan það að ef hún er á hendi erlendra aðila og/eða innlendra spákaupmanna er hún náttúrlega ekki til þess fallin að skapa ríkinu eða ríkissjóði endilega tekjur, alla vega eins og ég segi í hvellinum, þannig að ég hef svo sem ekki beina trú á því (Forseti hringir.) að þetta sé til þess fallið. En auðvitað býr eitthvað að baki sem við vitum ekki hvað er.