149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:31]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M):

Forseti. Ég var byrjaður að fjalla um umræðu um þriðja orkupakkann í Noregi, í norskum stjórnmálum, og þá staðreynd að ákveði Íslendingar að vísa málinu aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar gefi það Norðmönnum tækifæri til að leita réttar síns þar eða tryggja þá fyrirvara sem þeir hafa sett einhliða við orkupakkann í EES-nefndinni, þ.e. að fá raunverulegar undanþágur. Svo virðist vera sem einhverjum í Noregi og hér á Íslandi líki ekki að þetta mál fari þar aftur til skoðunar og vilji þá jafnvel ekki að þessir einhliða fyrirvarar Norðmanna öðlist gildi og verði að raunverulegum fyrirvörum.

En við skulum líta á hverjir þessir fyrirvarar eru því að það er mjög upplýsandi fyrir okkur á Íslandi með tilliti til umræðunnar hér. Höfum í huga að hér er þó um að ræða, að því er virðist, raunverulega lagalega fyrirvara sem menn sjá engu að síður engin merki um að nokkurt tillit verði tekið til af hálfu Evrópusambandsins.

Fyrsti fyrirvarinn er svohljóðandi í lauslegri þýðingu, forseti — eins ótrúlegt og það kann að virðast hafa stjórnvöld, eftir því sem ég fæ best séð, ekki haft fyrir því að þýða þessa fyrirvara og leggja fram með þessu máli, en fyrsti fyrirvari Norðmanna hljóðar einhvern veginn svona: Allt eftirlit með vatnsafli skal vera á hendi ríkis og sveitarfélaga. — Allt eftirlit með vatnsaflsvirkjunum skal vera á hendi ríkis og sveitarfélaga. Þetta er auðvitað í mótsögn við markmið þriðja orkupakkans.

Annar fyrirvarinn segir: Almennt eignarhald á norskum vatnsorkuauðlindum skal liggja fyrir og a.m.k. tveir þriðju hlutar skulu vera í eigu opinberra aðila. — Aftur er erfitt að sjá að þetta sé í samræmi við það sem lagt er upp með í þriðja orkupakkanum.

Þriðji fyrirvari Norðmanna er svohljóðandi: Norsk, endurnýjanleg orkuframleiðsla skal stuðla að aukinni verðmætasköpun og atvinnu í Noregi og skal skipta út jarðefnaeldsneyti fyrir endurnýjanlega orku. — Enn og aftur erum við komin að fyrirvara sem er þess eðlis að hann varðar íslenska hagsmuni mjög mikið, atriði sem hefur verið töluvert rætt, mikilvægi þess að orkuframleiðsla, í þessu tilviki í Noregi en það sama á við á Íslandi, sé til þess fallin að stuðla að aukinni verðmætasköpun í landinu og atvinnuuppbyggingu. Það er þá væntanlega ekki að ástæðulausu sem Norðmenn sjá ástæðu til að reyna að koma þessum fyrirvara að. Hér hefur því verið haldið fram að fullyrðingar um að við þyrftum slíkan fyrirvara væru ekki á rökum reistar.

Fjórði fyrirvari Norðmanna af átta: Norsk stjórnvöld skulu hafa sjálfstætt eftirlit með öllum ákvörðunum sem eru mikilvægar fyrir orkuöryggi í Noregi, þar á meðal ákvarðanir sem tengjast iðnaði og aflgjöfum. Enn og aftur birtist hér einhliða fyrirvari frá Noregi sem virðist vera í andstöðu við markmið þriðja orkupakkans en er til þess fallinn, af hálfu Norðmanna, að reyna að styrkja stöðu þeirra gagnvart þessum þriðja orkupakka og koma til móts við áhyggjur sem við höfum verið að lýsa hér á Íslandi til þess eins að vera sakaðir um einangrunarstefnu og að dreifa upplýsingum sem ekki fái staðist.

Fimmti fyrirvari Norðmanna er svohljóðandi — nú sé ég, forseti, að tíminn er að klárast og ég hef ekki einu sinni náð að fara yfir nema helminginn, hef ekki náð að lesa nema helminginn af fyrirvörum norska Stórþingsins við þriðja orkupakkann. En þegar blasir við að þessir fyrirvarar ganga gegn meginstefnunni sem boðuð er í þriðja orkupakkanum og eru til þess fallnir að verjast því sem við erum að reyna að verjast hér á Íslandi, þeim afleiðingum sem blasa við af innleiðingu þess orkupakka.