149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:36]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Það er athyglisvert hvernig hann hefur verið að fara yfir þá fyrirvara sem norski Verkamannaflokkurinn, ef ég man rétt, hefur sett við orkupakkann í Noregi. Mig langar að eiga orðastað við hv. þingmann um það síðar í umræðunni.

Ég rakst á mjög athyglisverða grein á vefmiðlinum Viljinn eftir Hildi Sif Thorarensen verkfræðing þar sem hún veltir fyrir sér þeim ónýtta þjóðarauði sem felist í orkunni okkar og hvað verði um hann verði innleiðing orkupakka þrjú, tilskipunar Evrópusambandsins, að veruleika. Það kemur fram að töluverð umframorka sé í kerfinu, u.þ.b. 10% umframraforka í kerfinu, sem er framleidd af Landsvirkjun, en í greininni segir, með leyfi forseta:

„… undanfarna mánuði hefur hver fréttin á fætur annarri birst um aðila sem hafa áhuga á að virkja á Íslandi.“

Greinarhöfundur nefnir áhuga á að setja upp vindmyllur og nefnir norskt fyrirtæki sem er í eigu sveitarfélaga og fylkja og getur þess réttilega að slík fyrirtæki séu ekki í áhættuviðskiptum, það sé alveg ljóst, en engu að síður hafi þau áhuga á að fjárfesta í vindmyllum á Íslandi. Síðan nefnir greinarhöfundur einnig fleiri aðila, að fyrirtækið Arctic Hydro hafi samkvæmt vefnum hjá Orkustofnun sex rannsóknarleyfii fyrir vatnsaflsvirkjunum.

Ég vil því spyrja hv. þingmann: (Forseti hringir.) Má ekki ætla að ástæðan fyrir þessum mikla aukna áhuga tengist þessu máli, þ.e. orkupakka þrjú?