149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:39]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Mér finnst blasa við að þessi mjög svo aukni áhugi, sem birtist með ýmsum hætti í þessum vindorkugörðum og fjárfestingu í vatnsréttindum og jafnvel heilu orkufyrirtækjunum eða hlutafé í þeim, tengist þessari meginstefnu Evrópusambandsins og að menn geri þá ráð fyrir að hún nái fram að ganga. Mér finnst blasa við að menn ráðist ekki í þessar miklu fjárfestingar, sem í sumum tilvikum, eins og í tilviki sumra þessara vindorkugarða, virðast ekki líklegar til að bera sig, ef þeir þurfa að selja orkuna samkvæmt þeirri gjaldskrá sem gildir á Íslandi. Þar af leiðandi finnst mér augljóst að þetta snúist um að menn treysti á að geta ráðist í útflutning og fengið hærra orkuverð sem afleiðingu af þessum þriðja orkupakka.

Þetta gengur líka í berhögg við margt í fyrirvörum Norðmanna og sýnir að menn taka þá fyrirvara ekki alvarlega, hvað þá þessa svokölluðu fyrirvara hér á Íslandi sem hafa reyndar ekki fundist; menn hafa fundið einhverjar setningar í greinargerð með þingsályktunartillögu, eitthvað slíkt. En jafnvel í Noregi, þar sem menn leitast þó við að leggja fram lagalega fyrirvara, virðist ekkert vera gert með þá og þessir fjárfestar, þessi fyrirtæki, fara sínu fram eins og þeir séu ekki til og skipti engu máli og að markmið þriðja orkupakkans muni ná fram að ganga með tengingu raforkukerfa og hærra orkuverði.