149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:41]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég er alveg sammála honum í þessu. Það hlýtur að blasa við, þegar umframorka er í kerfinu og menn vilja væntanlega reyna að selja þá orku sem þeir ætla sér að fara að vinna hér á landi, vindmyllugarðar, vatnsaflsvirkjanir o.s.frv., að það er verið að hugsa til útflutnings. Annað bara gengur ekki upp. Að sama skapi hljóta þessir aðilar að vera mjög svo á móti því að fengin verði varanleg undanþága frá þessari tilskipun. Má þá ekki segja að verið sé að kippa stoðunum undan þessum fyrirtækjum ef við fáum varanlega undanþágu því að þá verðum við ekki aðilar að þessu? Með aðferðafræði ríkisstjórnarinnar er verið að halda opnum þeim möguleika að við getum tengst þessu kerfi og stígum þá næsta skref sem felst í sæstrengnum.