149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:42]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Ég myndi ganga lengra og halda því fram að ekki sé aðeins verið að halda möguleikanum opnum, heldur beinlínis að senda þau skilaboð að við, íslensk stjórnvöld, ætlum ekkert að þvælast fyrir og mönnum sé óhætt að fjárfesta í þessari grein, jafnvel í vindgörðum, sem hafa kannski ekki verið taldir mjög samkeppnishæfir við vatnsaflsvirkjanirnar eða jarðvarmavirkjanirnar okkar, að mönnum sé óhætt að fjárfesta í slíku í trausti þess að íslensk stjórnvöld ætli ekki aðeins að passa sig á að þvælast ekki fyrir heldur séu beinlínis að stuðla að því að markmið þessa þriðja orkupakka nái fram að ganga og að menn muni fyrr en varir fá tækifæri til að selja þessa orku á hærra verði en gengur og gerist nú og selja hana á allan Evrópumarkað.