149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:45]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Þetta sem hv. þingmaður lýsir réttilega er að mínu mati algjörlega óskiljanlegt, að íslensk stjórnvöld skuli ekki hafa skoðað þessa fyrirvara og tilefni þeirra og tekið mið af því í vinnu við þetta mál. Það væri engin nýlunda að menn litu til Norðurlandanna, eða Noregs ekki hvað síst, og þess sem gerist þar í pólitík. Það líður varla sá dagur hér í þinginu að menn líti ekki til þess hvernig menn túlki hlutina þar eða hvað þeir séu að gera, ekki hvað síst á sviði Evrópusamstarfsins. Það er því óskiljanlegt að í þessu stóra máli sé einfaldlega ákveðið að líta fram hjá þeim miklu deilum sem urðu um málið í Noregi og þeim fyrirvörum sem norska þingið sá ástæðu til að setja fram.

En hvað varðar seinni spurningu hv. þingmanns, um viðhorf, m.a. fjárfesta, til hvort sem er norsku fyrirvaranna eða ímynduðu íslensku fyrirvaranna, held ég að óhætt sé að segja að allir vita hvað er að gerast. Það vita það allir nema hugsanlega nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem kusu að trúa, því sem kallað var af fyrrverandi formanni þess flokks, lofsverðum blekkingum, trúa þessum lofsverðu blekkingum sem þessi fyrrverandi formaður og Evrópusinni kallaði svo.

Forystumenn í íslensku atvinnulífi hafa skrifað um þetta. Við höfum rætt þetta hér á þinginu. Það hefur heilmikið verið fjallað um þetta í fjölmiðlum og ég sé ekki betur en að nánast allir geri sér grein fyrir því að þessir fyrirvarar séu allir að engu hafandi og átti sig á því í hvað stefni með innleiðingu á þriðja orkupakkanum.