149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:49]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Til að ítreka svör mín við spurningum hv. þingmanns bendi ég einfaldlega á yfirlýsingu forstjóra Landsvirkjunar um að það að innleiða ekki þriðja orkupakkann myndi veikja samningsstöðu fyrirtækisins gagnvart stóriðju vegna þess að menn gætu þá ekki farið fram á miklu hærra verð. Forstjórinn gerir með öðrum orðum ráð fyrir tengingu við þennan Evrópumarkað og að hærra verð fylgi í kjölfarið. Sömu stjórnvöld og benda á þessa yfirlýsingu máli sínu til stuðnings reyna á sama tíma að halda því fram að þetta hafi í raun engin áhrif á Íslandi.

Þversagnirnar í málflutningi stuðningsmanna þessa orkupakka eru hrópandi og dæmunum um þessar þversagnir fjölgar bara eftir því sem umræðunni vindur fram.