149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:53]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Vinstrihreyfingin – grænt framboð er til að mynda lent í því núna að reyna að aðstoða norsku hægri stjórnina við að komast hjá því að þurfa raunverulega að standa frammi fyrir þeim fyrirvörum sem ég var byrjaður að rekja hér áðan. Hv. þingmaður vísaði til, ég myndi orða það sem svo, óútfærðrar kenningar, svo maður sé kurteis, hæstv. utanríkisráðherra um að andstaðan við þetta kæmi fyrst og fremst frá Noregi. En hvaðan frá Noregi kemur sú andstaða? Það er að sjálfsögðu ekki rétt, og mikilvægt að ítreka það, að einhverjir Norðmenn stýri þessari umræðu hér. En hvaðan kæmi hún þá? Hún kemur til að mynda frá hinum ýmsu norsku stjórnmálaflokkum, þar með talið Verkamannaflokknum norska. Hún kemur frá norsku verkalýðshreyfingunni og hún kemur frá norskum almenningi sem hefur sömu áhyggjur og íslenskur almenningur hefur af innleiðingu þessa orkupakka. Þar í landi eru menn byrjaðir eða kannski löngu búnir að átta sig á því hversu lítið hald er í þeim fyrirvörum sem voru notaðir þar, rétt eins og menn nota sína sérkennilegu útgáfu af fyrirvörum á Íslandi, til að koma málinu í gegnum þingið.

Svo eru þessir fyrirvarar sendir á Evrópusambandið, sendir til Brussel, og það berst ekkert svar. Einn mánuður líður, tveir mánuðir, þrír mánuðir, fjórir mánuðir, tíu mánuðir, 11 mánuðir, 12, 13, 14 mánuðir eru liðnir. Það er ekki komið svar, einfaldlega vegna þess að menn taka ekkert mark á þessu og Norðmenn eru búnir að átta sig á því og sjá kannski tækifæri í því að málið fái að komast aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar (Forseti hringir.) svo að þeir geti fengið sínar undanþágur eins og við.