149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:55]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Þetta er einmitt það sem virðist alltaf vera að koma betur og betur í ljós eftir því sem umræðunni vindur fram, að það virðast fleiri en við hafa hleypt málinu lengra en kannski æskilegt hefði verið og fleiri en við virðast finna sig í þeirri stöðu — þegar ég segi við er ég að tala um Ísland, íslenska stjórnsýslu og íslensk stjórnmál — það virðast fleiri en við vera í þeirri stöðu að æskilegt væri að fá annan séns, ef svo má segja, til að eiga það samtal sem nauðsynlegt er að eiga hvað undanþágur og fyrirvara varðar og á þeim vettvangi sem til þess er ætlaður, sem er þá sameiginlega EES-nefndin. Það blasir þannig við manni, mér hið minnsta, að Norðmenn hljóti að vera áfram um að það tækifæri opnist að þeir fái (Forseti hringir.) möguleika á að taka málið upp við sameiginlegu EES-nefndina. Sér hv. þingmaður eitthvað sem er andsnúið hagsmunum Norðmanna hvað það varðar að það tækifæri opnist?