149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:03]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir ræðuna. Hann hefur einmitt verið að fikra sig svolítið í gegnum þetta málefni og dýpka aðeins á því í hverri ræðu, þ.e.: Og hvað svo? Hv. þingmaður kom inn á það í ræðu sinni að verð komi til með að þróast á þann hátt að það verði umtalsvert hærra en við þekkjum hér á landi í dag og muni nálgast eða verða eitthvað nálægt meðalverði sem það er í Evrópu. Ég get upplýst það ég vinn með töluverðum fjölda af fólki sem hefur heimilisfesti í Evrópu og hef gert grófan samanburð á því hvað verið er að greiða t.d. fyrir rafmagn til notkunar á venjulegu heimili, til að mynda í 100 m² íbúð, og það er nokkurn veginn tvöfalt á við það sem ég greiði af einbýlishúsi sem telur þrisvar sinnum þá stærð.

Við höfum hér undir höndum skýrslu sem gerð var í Noregi og fjallar um staðreyndir Evrópusambandsins, iðnaðinn og orkuverð. Skýrslan heitir á frummálinu, með leyfi forseta: „EUs energiunion, strømprisene og industrien“ og í niðurlagi þeirrar skýrslu er talað um afleiðingar þessarar innleiðingar á orkupökkunum.

Mig langar til að varpa þeirri spurningu til hv. þingmanns hvort hann viti til þess að hér á landi hafi verið gerð einhvers konar félagsfræðileg og hagfræðileg greining á því hvað slíkar verðhækkanir myndu þýða fyrir íslenskt samfélag.