149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:05]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Þór Þorvaldssyni fyrir andsvarið. Mér er ekki kunnugt um slíka félagsfræðilega úttekt þó að það væri vissulega hollt fyrir okkur að hafa aðgengi að slíkri úttekt. Ég held að enginn þurfi svo sem að velkjast í vafa um að áhrif verulegra breytinga á orkuverði munu verða umtalsverð í þeim geirum sem eru sérstaklega háðir raforku. Fylgismenn frumvarpsins eða innleiðingarinnar munu eflaust segja þetta: Þessu verður skilað til baka með einhverjum öðrum leiðum, skattar lækkaðir eða eitthvað annað bætt í staðinn. Í því samhengi hræða sporin einfaldlega. Við sjáum einfalt mál eins og tryggingagjald fyrirtækja sem hefur núna árum saman verið langt yfir því sem forsendur eru til að innheimta af fyrirtækjum og það er sífellt sagt af hendi stjórnmálamanna: Nú lækkum við þetta, nú fer þetta að lækka, nú lækkar þetta — en það lækkar ósköp hægt, þ.e. tryggingagjaldið. Ég er þess vegna þeirrar skoðunar, því miður, í ljósi þeirrar slæmu reynslu af getu eða getuleysi stjórnmálanna til að takast á við það að lækka álögur á atvinnulífið og er hræddur um að bara annar leggurinn yrði kláraður á þessu máli, þ.e. að hækka raforkuverð en það sem ætti að koma á móti kæmi seint og illa. Það væri hægt að nefna mýmörg dæmi um aðgerðir stjórnvalda þar sem kostnaðarliðurinn klárast að fullu en mótvægisaðgerðin (Forseti hringir.) bíður betri tíma og oft varanlega.