149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:09]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, ég held því miður, eins og hv. þm. Jón Þór Þorvaldsson ýjar að, að þetta beri allt að sama brunni. Við þurfum meiri tíma til að fara í gegnum þetta mál og greina bæði stöðuna og áhrif sem mismunandi sviðsmyndir eru líklegar til að kalla fram. Ég held að enginn velkist í vafa um að þetta muni hafa áhrif á iðnað og iðnaður hefur hátt hlutfall afleiddra starfa tengd hverju fyrirtæki. Það hefur komið mér á óvart, verð ég að viðurkenna, að formaður Samtaka iðnaðarins var einn af þeim átta fyrirsvarsmönnum atvinnulífs og samtaka sem skrifaði hvatningargrein í þá veru að samþykkja skyldi orkupakkann. Reyndar var farið mjög varlega í orðalagi þeirrar greinar. Ég held að það hafi verið það varlegasta orðaða plagg sem komið hefur fram þannig að ég er ekki viss um að meiningin hafi verið mikil, en stundum er hópþrýstingurinn með þeim hætti að ekki verði við ráðið.

Við þurfum ekki annað en að horfa á áhyggjur Félags garðyrkjumanna, svo dæmi sé tekið, Félags bakarameistara og hægt væri að telja áfram hópana þar sem er augljóst að áhrifin verða þannig að menn finna fyrir því eða fyrirtækin, þ.e. að reksturinn finnur fyrir. Ég held, eins og ég sagði í byrjun svars míns, að við hefðum gott af því að fá rýmri tíma til að greina þetta. Þessir hlutir hafa bara ekkert verið greindir, að því er ég best veit, hvað einhverja dýpt varðar. Sjálfur er ég hér að tala út frá tilfinningu fyrir þessum hlutum en ég held að sú nálgun sé eins gott, ef svo má segja, upplýst gisk og hægt er (Forseti hringir.) að nálgast á þessu stigi málsins.