149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:14]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hvort sem ríkisstjórn er Evrópusinnuð eða hefur það á stefnuskrá sinni að opna fyrir lagningu sæstrengs, þó að slíkt hafi mögulega ekki verið rætt í kosningabaráttu, gæti hún mjög fyrirvaralítið staðið frammi fyrir slíkri stöðu. Á síðasta degi í kosningabaráttunni 2009 staðhæfði formaður VG — nú er ég að segja frá efnislega, ekki orðrétt — að stjórnmálaflokkur formannsins myndi ekki taka þátt í því að sækja um aðild að Evrópusambandinu að kosningum afloknum. Ekki voru liðnar margar vikur áður en ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hafði sent aðildarumsókn til Brussel þannig að svona hlutir eru allir breytingum háðir. Sæi maður fyrir sér ríkisstjórn sem samanstæði af Samfylkingu, Viðreisn og Pírötum, svo að ég nefni þá flokka sem virðast áhugasamastir um aðild að Evrópusambandinu, myndi ég telja líklegt að sú ríkisstjórn yrði fljót til að liðka fyrir þeim reglum sem nauðsynlegt væri að breyta til að þetta mál hefði framgang.

Skjótt skipast veður í lofti í þessum efnum og í mínu pólitíska minni hafa hlutir aldrei breyst hraðar en frá því daginn fyrir alþingiskosningar 2009 fram að þeim tíma að aðildarumsókn var send hvað varðar aðlögunarviðræður Íslands að Evrópusambandinu.