149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:16]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég held að þetta sé mjög mikilvægt plagg inn í þessa umræðu; hér er sem sagt opinber skýrsla til ráðuneytisins sem fer mjög nákvæmlega ofan í sæstreng og það sem honum fylgir, auknar virkjunarframkvæmdir o.s.frv. Slík skýrsla er að sjálfsögðu gerð að beiðni ráðuneytisins, með vitund og vilja stjórnvalda og kostuð af stjórnvöldum. Síðan ætla þessi sömu stjórnvöld að fara að setja lög sem banna þennan sæstreng þannig að það eru miklar þversagnir í þessu. Ég held að þessi fyrirhugaða lagasetning varðandi sæstrenginn, að hann verði ekki lagður, sé bara, eins og komið hefur fram hér, til að friðþægja grasrót stjórnmálaflokka sem er afar ósátt við framgöngu sinna flokka í þessu máli. Ég nefni grasrót Framsóknarflokksins og grasrót Sjálfstæðisflokksins.

Svo nefndi hv. þingmaður réttilega stjórnmálahreyfinguna Vinstri græna og maður setur spurningarmerki við, og maður er sérstaklega hissa á því, að flokkur sem hefur haft umhverfismálin á sinni könnu skuli ekki átta sig á því að þessi innleiðing, og þau skref sem verið er að stíga, kemur til með að þýða auknar virkjunarframkvæmdir, það er alveg klárt, bæði í vindorku og vatnsorku — að menn skuli ekki setja fyrirvara við þessa innleiðingu á þeim forsendum, það vekur mann til umhugsunar.