149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:21]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M):

Hæstv. forseti. Mig langar til að víkja aðeins að því sem ég myndi vilja kalla fyrirvaraleysi Alþingis við orkupakka þrjú á svolítið öðrum nótum en hingað til hefur verið gert. Fyrirhugað er á næstu dögum að taka afstöðu til boðaðra fyrirvara vegna innleiðingar á orkupakka þrjú. Við þurfum kannski að gera okkur aðeins grein fyrir því hvernig ætlunin er að gera það, hvort fyrirvararnir séu raunverulegir.

Í 39. gr. a raforkulaga, nr. 65/2003, sem eru núgildandi lög, segir:

„Ráðherra leggur á fjögurra ára fresti fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.“

Í núgildandi stefnu kemur fram, í þingsályktun nr. 26/148 frá 11. júní 2008, að þingsályktanir — það sem ég vildi segja er að þingsályktanir eru viljayfirlýsingar Alþingis. Þær sæta sérstakri meðferð. Slíkar tillögur eru í ályktunarformi og þær eru ræddar við tvær umræður á Alþingi. Þingsályktunartillögurnar kunna að geyma reglur sem slíkar eða einhver fyrirmæli sem skylda framkvæmdarvaldið til ákveðinna athafna en það er trauðla þekkt að þær geymi bindandi reglur líkt og lög gera. Umfjöllun þingsins og efnismeðferð þeirra á Alþingi er önnur en efnismeðferð frumvarpa. Þó að Alþingi geti samþykkt þingsályktunartillögur og þær geymi einhvers konar bindandi fyrirmæli standa þau skör lægra en lög. Meðferð þingsályktunartillagna er einfaldari en lagafrumvarpa, eins og ég nefndi hér áður. Auk þess á hinn aðili löggjafarvaldsins, sem er forseti Íslands, ekki hlut að setningu þingsályktunartillagnanna, þ.e. lögum verður ekki breytt með þingsályktun. Í fyllingu þess má nefna að í dómi Hæstaréttar 1943 á bls. 92 hefur verið staðfest að einstaklingar geta til að mynda ekki reist rétt sinn á þingsályktun þegar lög mæla fyrir um annað. Framkvæmdarvaldið hefur nú stigið fram og segist ætla að tryggja hagsmuni þjóðarinnar við innleiðingu raforkutilskipunarinnar tengda svokölluðum þriðja orkupakka og áskilja sér að það sé sérstök ákvörðun Alþingis hvort komið verði á tengingu eða raforkuflutningi í gegnum sæstreng og því markmiði á að ná fram með eftirfarandi lagasetningaraðferð, þ.e. með tveimur þingskjölum sem lögð hafa verið fram. Annað er að samþykkja þingsályktunartillöguna sem felur í sér breytingu á þingsályktun nr. 26/148, sem ég nefndi áðan, og með þessu á að bæta í þá þingsályktunartillögu eftirfarandi texta:

„Ekki verður ráðist í tengingu raforkukerfis landsins við raforkukerfi annars lands í gegnum sæstreng nema að undangengnu samþykki Alþingis. Skal það samþykki liggja fyrir áður en framkvæmdir sem varða slíka tengingu geta farið á framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar. Til grundvallar slíkri ákvörðun Alþingis skal liggja heildstætt mat á umhverfis-, samfélags- og efnahagslegum áhrifum slíkrar tengingar og framkvæmda vegna hennar.“

Ég kom inn á það í andsvari mínu rétt áðan við hv. þm. Bergþór Ólason hvort búið væri að gera slíka greiningu. Ég veit ekki til þess og ekki vissi hv. þm. Bergþór Ólason til þess. Það má vera að hún liggi einhvers staðar en hún hefur alla vega ekki verið kynnt í samhengi við þessa þingsályktunartillögu.

Hinn hluti leiðarinnar er að samþykkja breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003, sem sagt núgildandi löggjöf, þar sem kemur ný málsgrein í 9. gr. raforkulaga og verður þá 6. mgr. sem segir:

„Um tengingu raforkukerfis landsins við raforkukerfi annars lands í gegnum sæstreng fer samkvæmt stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.“

Hver er sú stefna? Ég sé að ég er runninn út á tíma og komst ekki nándar nærri í gegnum það sem ég ætlaði að segja (Forseti hringir.) og bið hæstv. forseta um að bæta mér aftur á mælendaskrá svo að ég geti klárað erindið.