149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:29]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir andsvarið. Þessi grein Hildar Sifjar sem birtist í Viljanum er grein sem ég kannast við. Þar er farið svolítið yfir sviðið og það eru ansi áhugaverðar vangaveltur sem birtast í þeirri grein. Þar er því velt upp að hópar fjárfesta, sumir tengdir, aðrir minna, hafa greinilega áhuga á að fjárfesta í kerfi þar sem er umframmagn af vöru umfram eftirspurn. Við fyrstu sýn er ekki rökrétt að þar sé mikils gróða að vænta sem gerir að verkum að maður veltir fyrir sér hvað skyldi þá liggja undir. Það hlýtur þá að vera von um að eftirspurn muni aukast og það svona í fyrirsjáanlegri framtíð. Það gerist trauðla nema á þann hátt að hér verði lagður sæstrengur.

En það sem vekur athygli í því er að þeir aðilar sem eiga undir mikilsverða hagsmuni í orkugeiranum, í fjárfestingum, virðast allir umgangast þá fyrirvara sem verið er að setja hér, eða ætlunin er að setja, á þann hátt að þeir komi aldrei til með að stoppa nokkurn skapaðan hlut. Og það er það sem vekur athygli mína, að þeir sem eru djúpt innviklaðir og hafa velt þessum málum mikið fyrir sér vita að hér er verið að einkavæða. Þeir vita að með fjárfestingu á þessum vettvangi muni þeir hafa aðgang að orkulindum Íslendinga.