149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:31]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni afar góða greiningu á því sem ég fjallaði hér um. Ég er sammála hv. þingmanni hvað þetta varðar og maður veltir hreinlega fyrir sér í ljósi þessa, að þeir aðilar, þeir fjárfestar sem hafa svo mikinn áhuga á því að koma að orkuframleiðslu á Íslandi, virðast ekki hafa nokkrar áhyggjur af þessum fyrirvörum. Þá er kannski spurningin þessi: Eru þessir fyrirvarar þá ekki bara ákveðin sýndarmennska til að koma málinu í gegn og til að friðþægja grasrót þessara flokka, bæði grasrót Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, þannig að það verði engin óeining þar inni og menn geti bara komið málinu í gegn með tiltölulega lítilli fyrirhöfn? Eina fyrirhöfnin er sú að hér þurfa þingmenn að vera í þinginu til að hlusta á Miðflokkinn andmæla þessum áformum í þeirri von náttúrlega að við Miðflokksþingmenn hættum á endanum þessari umfjöllun, og þá rennur þetta í gegn. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa greiningu. Þetta er mjög skilmerkilega sett fram hjá honum hvað þetta varðar, einfalt og kjarni málsins kemur glögglega fram, að þessir aðilar virðast ekki hafa nokkrar áhyggjur af þessum fyrirvörum, að það komi til með að hindra þá í þeim áformum sínum að flytja raforku út í stórum stíl.

Það er tvennt sem vekur áhyggjur manna, fyrst og fremst að raforka til heimila og fyrirtækja í landinu komi til með að hækka og síðan aukin virkjunaráform, (Forseti hringir.) þau koma náttúrlega til með að hafa umtalsverð umhverfisleg áhrif.