149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:40]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir þetta svar en í framhaldi af því dettur mér í hug að það kunni líka að vera, og mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hann geti verið mér sammála um það, ástæðan fyrir þessum aukna áhuga að þessir ágætu menn sem eru að fjárfesta í orkukostum fylgjast að sjálfsögðu gríðarlega vel með og þeir hafa orðið þess áskynja, rétt eins og við Íslendingar höfum horft upp á, að þeir kanadísku aðilar sem keyptu HS Orku á sínum tíma, fyrir tíu árum, hafa tífaldað fjárfestingu sína. Það er ekki af engu sem Bloomberg kemst að þessari niðurstöðu þannig að ég velti fyrir mér hvort þarna sé samhengi á milli.

Síðan höfum við hér öfluga íslenska fjárfesta sem hafa allt frá því árið 2016 eða fyrr lýst yfir eindregnum vilja sínum til að koma á tengingu með sæstreng, öflugir íslenskir fjárfestar. Maður veltir fyrir sér hvort framlagning þessarar þingsályktunartillögu og allur málatilbúnaður — sá asi sem er viðhafður, sá einbeitti vilji að keyra þetta mál í gegn gegn vilja meiri hluta þjóðarinnar, flaustrið, fyrirvaraleysið, andvaraleysið — beri að sama brunni, að menn séu að bjóða hættunni heim, að menn séu að bjóða því heim að hingað safnist fjárplógsmenn sem ætli sér að framleiða orku á Íslandi við hærra verði en sú orka sem nú er framleidd.

Þá er spurningin: Hvað ætla menn að gera við þá orku? (Forseti hringir.) Hvert ætla þeir að selja hana? Á að hækka verð innan lands á orku eða sjá menn fyrir sér í hillingum eða við sjóndeildarhringinn að þeir geti selt þessa orku annað? Hvað segir hv. þingmaður um það?