149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:42]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að við séum komnir á þann stað í umræðunni, hv. þingmaður, að við getum bara talað um þetta á hreinni íslensku. Ég held að það sé alveg morgunljóst að hér er gróðavon. Ég áfellist menn ekkert fyrir það að vilja græða peninga. Ég held að það sé hið besta mál. En í þeim störfum sem við sinnum hér er okkur ætlað að gæta hagsmuna þjóðarinnar. Þeir hagsmunir fara, í þessu tiltekna máli, trauðla séð saman við þessar fyrirætlanir. Og, jú, ég held að það sé morgunljóst að í gegnum sæstreng opnist veita til að selja jafnstraum yfir til Evrópu og að með slíkum streng sé hægt að lýsa upp 2 milljónir heimila. Það er ansi mikið. Við getum ímyndað okkur tekjurnar af því á þeirri verðskrá sem er gildandi í Evrópusambandinu, sem er umtalsvert hærri en hér.

Að því gefnu held ég að það sé morgunljóst að þeir sem fjárfesta í slíku eiga von á því að geta margfaldað fjárfestingu sína, mögulega tífaldað hana ef það er tilfellið. Ég þekki það ekki nákvæmlega og hef ekki séð tölurnar en tek orð þingmanna sem hér hafa talað um að fjárfestar í HS Orku hafi tífaldað sína fjárfestingu. Ef menn eru að horfa á slíkt er það mjög ríkuleg ávöxtun á tíu ára tímabili í sögulegu samhengi.