149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:45]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vakti athygli fyrr í þessari umræðu á grein sem hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir á í Morgunblaðinu í dag, eða í gær reyndar, það er komið fram yfir miðnætti, klukkuna vantar korter í þrjú, þar sem hún fjallar um vandaða málsmeðferð um þriðja orkupakkann. Þegar ég vakti athygli á greininni fyrr í kvöld óskaði ég eftir því að hv. þingmaður kæmi í þingsal og svaraði fyrir ákveðnar staðhæfingar í þeirri grein sem eru rangar. Það er mjög nauðsynlegt að hv. þingmaður komi hingað og ræði þá grein og innihald hennar vegna þess að þessi sami hv. þingmaður, Bryndís Haraldsdóttir, hefur sakað Miðflokkinn, þar á meðal þann sem hér stendur, um að fara með rangfærslur í þessu máli.

Málið snýr einkum að hækkunum á raforkuverði til heimila og fyrirtækja í landinu við innleiðingu orkupakka eitt og tvö. Í greininni er hv. þingmaður að tala um orkupakkann og segir, með leyfi forseta:

„… heldur eru reglur hans til hagsbóta fyrir Íslendinga vegna aukinnar neytendaverndar og reglna sem stuðla að aukinni samkeppni og jafnræði milli aðila, sem ætti almennt að stuðla að lægra verði.“

Hér er um rangfærslur að ræða vegna þess að orkuverð hækkaði við innleiðingu orkupakka eitt og tvö. Hér er t.d. blaðagrein í Vísi frá því í febrúar 2005 og er yfirskrift hennar: Orkuverð hækkar vegna orkulaga. Ég ætla að vitna aðeins í hana, með leyfi forseta:

„Orkuverð hækkar víða um land vegna nýrra raforkulaga sem banna ýmis sérkjör sem áður buðust. … Ný orkulög valda hærra orkuverði til nokkurs fjölda neytenda, eins og til að mynda smáfyrirtækja sem áður nutu sérkjara hjá Orkuveitu Reykjavíkur. … Garðyrkjubændur eru einnig fórnarlömb orkulaga sem og fjöldi húseigenda“ — ég legg áherslu á það — „á landsbyggðinni sem nota raforku til kyndingar.“

Jafnframt segir í þessari grein að þáverandi iðnaðarráðherra hafi fullyrt að ekki kæmi til hækkunar á orkuverði vegna nýju laganna. Hins vegar gerist þveröfugt við það sem ráðherra segir. Auðvitað er ámælisvert, herra forseti, að þarna stígur ráðherra fram og segir að orkuverð komi ekki til með að hækka en síðan hækkar það til fjölda notenda. Þess vegna held ég að það sé alveg óhætt að fullyrða hér og nú að fullyrðingar eins og birtast í grein hv. þingmanns koma ekki til með að standast og eru í raun og veru rangar hvað þennan hluta varðar.

Fullyrðingar hv. þingmanna sem styðja þetta mál um að orkuverð komi ekki til með að hækka — það tekur þetta ekki nokkur maður trúanlegt, bara í ljósi þess sem gerðist við orkupakka eitt og tvö. Sem dæmi má nefna — ég er hér með töflu, sýndi hana reyndar áðan og ætla að sýna hana aftur núna vegna þess að það tengist því sem ég er að segja — töflu yfir hækkun raforkuverðs frá janúar 2013 til janúar 2017. Meðaltalshækkun hjá þessum fyrirtækjum, sem eru sex raforkusalar, er 19,6%, tæp 20% hækkun á þessu tímabili á sama tíma og vísitala neysluverðs hækkaði um tæp 9%. Fullyrðingar um aukna neytendavernd og lægra orkuverð standast ekki. Ég er sérstaklega minnugur þess að í upphafi þessarar umræðu, sem hefur staðið um allnokkra hríð, vakti ég máls á þessu í fyrstu ræðu minni um þennan orkupakka að orkuverð hefði hækkað til neytenda og þá man ég sérstaklega eftir því að hv. þm. (Forseti hringir.) Bryndís Haraldsdóttir kallaði úr sal að það væri rangt hjá mér.

Þetta verður bara að ræða hér, herra forseti, við hv. þingmann.