149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:50]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir ræðuna. Ég held að þetta sé einmitt hluti af því sem vekur upp áhyggjur hjá fólki sem er að horfa til þess hvaða áhrif þriðji orkupakkinn hefur að aflokinni innleiðingu, bæði núna strax og síðan aftur þegar sæstrengur hefur verið lagður. Flestöll þau gögn sem ég hef hið minnsta séð benda til þess að kostnaðarauki verði þarna á og sagan segir okkur — ég þekki ekki nokkurn einstakling og ekki til nokkurs heimilis þar sem menn upplifa að lækkun hafi verið á raforkuverði samanborið við þróun vísitölu á síðustu 10–15 árum síðan innleiðing fyrsta og annars orkupakkans gekk í gegn.

Hæstv. iðnaðarráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, hefur skrifað grein um að orkuverð hafi lækkað en ég hef ekki lesið grein hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur í Morgunblaðinu í morgun, en ef ég skildi ræðu hv. þingmanns rétt kom hún fram með kenningu um að fyrirsjáanleg væri lækkun vegna innleiðingar þriðja orkupakkans. Hvernig metur hv. þingmaður trúverðugleika þeirrar spár hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur?