149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:57]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg hjartanlega sammála hv. þingmanni og greiningu hans á þessari grein sem er í raun og veru alveg makalaus og þarf að ræða sérstaklega. Ég hef óskað eftir því að fá að ræða þetta sérstaklega við hv. þingmann og ég ætla að vona að hún verði við þeirri beiðni í þessari umræðu, herra forseti. Það er bara mjög mikilvægt gagnvart almenningi og þeim málflutningi sem stjórnarþingmenn hafa haft í garð okkar Miðflokksmanna þegar kemur að þessu máli.

Greinarhöfundur, hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir, nefnir sérstaklega neytendaverndina og fleiri stjórnarþingmenn hafa nefnt neytendavernd sem einn af þessum stóru mikilvægu kostum við það að undirgangast þennan orkupakka Evrópusambandsins. Hv. þm. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir hefur einnig haldið neytendavernd á lofti, að hún sé svo mikilvæg, að hægt sé að skipta um orkusala. Ég hef áður nefnt það í umræðunni, herra forseti, að því er nú þannig háttað að sárafáir nýta sér það að skipta um orkusala vegna þess að ávinningurinn er nánast enginn. Afslátturinn sem býðst til að lækka raforkureikninginn er svo lítill að það tekur því varla að standa í því. Það er nú öll þessi blessaða neytendavernd.

Ég held að menn ættu bara að halda sig við staðreyndir í þessu máli. Raforkuverðið kemur til með að hækka. Það kemur örugglega til með að hækka vegna þess að orkufyrirtækin eru búin að segja að hækkun á eftirlitsgjaldinu sem er um 45%, sem kemur strax til framkvæmda við innleiðingu þessa orkupakka, fer beint út í verðlagið. (Forseti hringir.) Orkufyrirtækin eru búin að segja okkur það þannig að það liggur fyrir.