149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:02]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni og tek heils hugar undir það með honum að auðvitað á að kynna málið miklu betur. Ég veit ekki betur en að hæstv. utanríkisráðherra hafi sagt ekki fyrir svo löngu að hugsanlega yrði þessu máli frestað fram á haustið. Það hefur orðið einhver breyting á í þeim efnum en ég átta mig ekki á hvers vegna það er.

En það er alveg klárt mál að fara þarf mun betur yfir málið, upplýsa almenning og fara í ákveðna greiningarvinnu. Það er ekki hægt að fullyrða svona hluti, stjórnmálamenn geta ekki fullyrt að engin breyting verði á orkuverði o.s.frv. eins og gerðist með orkupakka eitt og tvö þegar hæstv. þáverandi iðnaðarráðherra fullyrti að engin hækkun yrði á raforkuverði. Hvað kom svo á daginn? Heilmiklar hækkanir, bæði til húshitunar með rafmagni á landsbyggðinni, til smáfyrirtækja sem keyptu ódýra orku, ýmsir sérsamningar sem voru, þetta var allt bannað. Stjórnvöld sögðu aldrei frá því í kynningu eða umfjöllun um orkupakka eitt og tvö að sérsamningar yrðu bannaðir. Almenningi var aldrei sagt frá því og ég held, eins og ég rakti reyndar í ræðu í gær, að ef maður skoðar bréfaskriftir úr ráðuneytinu varðandi undirbúninginn að orkupakka eitt og tvö man ég sérstaklega eftir einni setningu sem segir að hugsanlega verði breyting hér á. Þá er átt við þessa sérsamninga sem mönnum buðust á þeim tíma. Vitneskjan var ekki meiri í ráðuneytinu en þetta, menn vissu ekki (Forseti hringir.) hverjar afleiðingarnar yrðu.