149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:09]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Hægt og hægt er að teiknast upp sú mynd eftir þær umræður sem hér hafa farið fram, bæði í síðustu viku og nú síðustu dægur, að þetta þriðja orkupakkamál er miklu verra mál, vanbúnara og alvarlegra mál en meira að segja við, andstæðingar málsins, héldum. Þetta hefur komið ítrekað fram í þeim umræðum sem hér hafa átt sér stað undanfarið.

Mig langar í þessari ræðu og væntanlega nokkrum þeim næstu að undirbyggja þetta álit mitt enn frekar. Við skulum spóla aftur til upphafs þessarar umræðu þegar menn voru að velta fyrir sér valdframsalinu, þ.e. afsali forræðis, og segir í álitsgerð Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts og Stefáns Más Stefánssonar, með leyfi forseta:

„Með hliðsjón af framansögðu er torvelt að líta svo á að framsal ríkisvalds samkvæmt 8. gr. reglugerðar nr. 713/2009 sé vel afmarkað og skilgreint. Virðist fremur verða að líta svo á að valdheimildir ESA samkvæmt 8. gr. reglugerðarinnar yrðu óljósar og háðar túlkun á þeim hugtökum sem að framan greinir.“

Nú er búið að vera að reyna að segja okkur að þeir ágætu fræðimenn, sem að sjálfsögðu hafa reynt að fría sig pólitík eins og hægt er, og það er skiljanlegt og aðdáunarvert — en þá kemur Stefán Már Stefánsson í heimsókn í Kastljós 6. maí og segir fyrst, með leyfi forseta:

„Það eru nefnd í dæmaskyni í reglugerðinni hvað þeir geta gert en við teljum að þetta sé ekki tæmandi upp talið og við stöndum svolítið frammi fyrir því að þetta sé óskýrt.“

Stjórnandi Kastljóssins spyr, með leyfi forseta:

„Já, í því valdframsali?“

Stefán Már Stefánsson svarar aftur, með leyfi forseta:

„Í valdframsali.“

Spyrillinn spyr þá, með leyfi forseta:

„Þá er lögð áhersla á það hjá okkur að það sé afmarkað og skilgreint hvaða vald við erum að framselja til stofnana.“

Stefán Már Stefánsson staðfestir þetta, með leyfi forseta, og segir: „Nákvæmlega.“ Síðan bætir hann við örlítið seinna í viðtalinu:

„En ef þú hefur óskilgreint vald, þá felst í því að þú getur ekki séð hvar þetta endar.“

Þetta segir þessi ágæti fræðimaður sem ég segi aftur að hann og félagi hans í sinni góðu greinargerð fóru mjög skynsamlega fram hjá pólitík í álitsgerðinni og sínum niðurstöðum sem eru nokkuð öðruvísi en sumir aðrir álitsgjafar gerðu. En efinn er þarna og oft hefur verið sagt við okkur, aftur og aftur: Þið eruð að vaða reyk í þessu máli. Þetta er tómt bull. Það er verið að framkvæma þetta nákvæmlega eins og þessir ágætu menn lögðu til.

Þeir hafa reyndar komið fram opinberlega eftir á og sagt: Nei, nei, nei, það er ekki svo. Við vorum ekki að leggja neitt til. Við sögðum bara: Þetta er okkar álit, vegna þess að það var verið að reyna með öllu móti að hneppa þessa ágætu menn í pólitíska fjötra. Þeir börðust á móti, að sjálfsögðu, skynsamlega og fimlega vegna þess að auðvitað vilja menn sem eru þetta miklir sérfræðingar á sínu sviði náttúrlega ekki fórna fræðimannsheiðri sínum til að lenda í einhverri pólitík. Það segir sig algjörlega sjálft. Það að reyna að hneppa menn í slíkt eru ekki góð vinnubrögð. Þetta kemur fram aftur og aftur vegna þess að menn segja að ef þetta mál væri búið núna eins og það var, þá o.s.frv. — en efinn er þarna, alla tíð er hann þarna. Ég hef sagt og segi aftur: Efi eins manns með þessa þekkingu á þessu máli (Forseti hringir.) er nóg fyrir mig.