149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:17]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það er einmitt svo, hv. þingmaður, og takk fyrir þetta andsvar. Það er í sjálfu sér nákvæmlega þetta sem ég var að segja og í næstu ræðu minni eða ræðum mun ég fara nokkuð gaumgæfilega yfir 8. gr. reglugerðar nr. 713/2009 samkvæmt upplýsingum sem teknar hafa verið saman og ég mun fara betur yfir það og í lengra máli. En í stuttu máli sagt: Já, þarna er um valdframsal að ræða og það var nú orðað þannig í upphaflegu greinargerðinni sem vitnað hefur verið til æ ofan í æ í þessari umræðu, alveg frá byrjun, að menn sögðu: Þetta er mesta valdframsal nokkurrar innleiðingar á EES-gerð á Íslandi, hvorki meira né minna. Síðan koma menn hér í löngum bunum og segja: Heyrðu, þetta skiptir engu máli, þetta er ekkert mál, en þeir vilja samt innleiða þessa reglugerð þó að hún sé ekki neitt neitt og þótt hún skipti engu máli og hafi ekkert í för með sér o.s.frv. Þetta er náttúrlega ekki boðlegur málflutningur og á sama tíma eru þeir sem gjalda varhuga við og vilja einnig hlusta á þjóðina sakaðir um hitt og þetta sem ég nenni ekki einu sinni að hirða um að tína upp, svona rökþrota bull sem æ ofan í æ hefur verið sett framan í þá sem hér eru, síðast í gærmorgun í dæmalausu viðtali við formann Viðreisnar sem setti fram hluti sem eru ekki svaraverðir og henni til þvílíkrar minnkunar að ljóst er að sú góða stjórnmálakona hefur tapað sjálfsvirðingu sinni. Að öðru leyti ætla ég ekki að ræða ummæli hennar. En það er þetta sem er að kristallast, að þeir sem vara við eru kallaðir ónefnum. Dreginn er í efa (Forseti hringir.) fræðimannsheiður þeirra sem líka vara við, og reynt að draga inn í pólitík. (Forseti hringir.) Þetta mál er vont á alla enda og kanta.