149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:20]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir svarið. Vinur er sá er varar. Hér hafa menn staðið, þeir sem lengst hafa staðið, og oftast hafa þeir ekki gert annað en að vara við og hafa boðið upp á sátt í málinu, hafa rétt út höndina og beðið um að hér verði hægt aðeins á og beygt af leið og að málið verði skoðað betur ofan í kjölinn svo betri sátt megi nást, vegna þess að það merkilega í þessu máli er að í þeim stuttu, fáu og í mörgum tilfellum innihaldsrýru ræðum sem hafa verið haldnar af stjórnarliðum og stjórnarandstöðu, sem þó eru fylgismenn þessarar innleiðingar, er eitt sem stendur upp úr og það er að allir nema einhverjir meðlimir Pírata og þá kannski Viðreisnar eru þeirrar skoðunar að það þurfi fyrirvara, að það sé ekki hægt að gera þetta óbreytt. Um það eru nánast allir sammála. Hvernig stendur þá á því að það er alveg útilokað að heyra þá sem hér standa lengst og oftast, taka tillit til þeirra sjónarmiða? Hvers konar stjórnmál eru þetta? Er það ekki einkenni góðra leiðtoga og stjórnmálamanna að nýta samræðulistina? Samræðulist og (Forseti hringir.) mælska er ekki það sama og vitna ég þá í Sókrates.