149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:22]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Miðflokkurinn hefur gefið það út að hann sé flokkur sem hlusti á sjónarmið og ef einhverjir aðrir eigi betri lausnir í flóknum málum en flokkurinn sjálfur taki hann undir að lokinni skoðun á því sem fram er fært, taki tillit til og taki til sín o.s.frv. Þessi eiginleiki virðist ekki vera ríkjandi í hugum þeirra sem fara með valdið í landinu en látum það liggja á milli hluta. Og nú ætla ég að segja eins og hv. fyrrverandi þingmaður, Ögmundur Jónasson, sagði: Þetta mál á ekki að vera flokkspólitískt.

Við erum ekki hér, þessi hópur, að berja trommur Miðflokksins í þessu máli eða berja trommu okkar í málinu. Það sem við erum einfaldlega að benda á er að við teljum að málið sé þannig vaxið núna, það sé þannig búið að ekki sé hægt að afgreiða það vegna þess að í afgreiðslunni felist hætta. Það sem við viljum ekki lenda í og kærum okkur ekki um er að segja að einhverjum tíma liðnum: Við sögðum ykkur þetta. Það er ekki það sem fyrir okkur vakir, okkur sem stöndum hér og reynum að vara við þessu máli. Við viljum einfaldlega að skýrasta leiðin, lögformlega leiðin, sé valin. Bent hefur verið á að henni geti fylgt pólitísk óvissa. Þá ætla ég að segja enn einu sinni: Við erum í því starfi að eiga við pólitíska óvissu nánast á hverjum einasta degi (Forseti hringir.) en lagalega óvissu getur þjóðin ekki búið við.