149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:33]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Í síðustu ræðu minni undir hlutanum: Og hvað svo? var ég að ræða það samkeppnisforskot sem íslensk fyrirtæki búa við á erfiðum markaði þar sem mótdrægt er auðvitað lega landsins, kostnaður við aðföng, fjarlægð frá stórum mörkuðum og þar fram eftir götunum. Þær áhyggjur sem ég hef af því að þetta samkeppnisforskot, sem er hagstætt raforkuverð, verði mönnum fjötur um fót sé það tekið af fyrirtækjum landsins. Ég hef jafnframt efasemdir um að þó að einhverri dúsu verði veifað á móti er reynslan sú að slíkar mótvægisaðgerðir skila sér seint og illa. Vil ég nefna tryggingagjaldið í því samhengi.

En í þessu samhengi langar mig að koma stuttlega inn á umsögn sem barst um málið frá Sambandi garðyrkjubænda. Þetta er prýðilega fram sett, knöpp umsögn þar sem segir m.a., með leyfi forseta:

„Samband garðyrkjubænda leggst gegn því að framangreind tillaga til þingsályktunar verði samþykkt og leggur áherslu á eftirfarandi:“ — Og þarna eru ýmis efnisatriði og ég hvet þá sem á hlusta til að fara inn á vef Alþingis og finna umsögnina þar undir málinu. Hún er prýðileg, en ég ætla að fá að halda áfram, með leyfi forseta, og taka út punkt sem skiptir máli í þessu samhengi, sjötta punktinn þar sem segir, með leyfi forseta:

„Íslensk garðyrkja þarf að búa við hagfellda innviði og raforkuverð til ylræktar er þegar of hátt. Hækkun á raforkuverði hefði alvarlegar afleiðingar fyrir greinina.“

Öll tvímæli eru tekin þar af um mikilvægi þess að greinin njóti hagkvæms raforkuverðs hér eftir. Síðan halda garðyrkjubændurnir áfram í umsögn sinni, með leyfi forseta:

„Fáum dylst að lagning sæstrengs myndi leiða til verulegra hækkana á orkuverði fyrir almenning og framleiðslufyrirtæki á Íslandi, þar með talið í garðyrkju. Slíkt myndi rýra lífskjör almennings og draga svo mjög úr samkeppnishæfni innlendrar framleiðslu að ætla má að mörg garðyrkjufyrirtæki myndu leggja niður starfsemi. Ótalin eru þá áhrif á aðrar innlendar framleiðslugreinar.“

Þetta er sjónarmið sem ég held að okkur beri skylda til að hafa í huga við afgreiðslu þessa máls á hinu háa Alþingi.

Ég ætla að halda áfram og koma inn á tvær málsgreinar til viðbótar í þessari umsögn Sambands garðyrkjubænda, með leyfi forseta:

„Það ætti að vera lágmarksskilyrði að ákvarðanir um að tengja Ísland við raforkukerfi annarra landa með sæstreng kæmi til kasta íslensku þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu, ekki nægir að Alþingi eitt taki svo afdrifaríka ákvörðun, jafnvel með naumum atkvæðamun.“

Þetta vildi ég nefna, bara til að undirstrika hversu fráleitur sá málflutningur er sem boðið var upp á hér af mörgum af stuðningsmönnum innleiðingar þriðja orkupakkans, að í honum væri bara ekki neitt, þetta skipti engu máli, við ættum að rúlla þessu í gegn, helst nokkurn veginn umræðulaust og það mætti alls ekki gera neinar athugasemdir. Þetta eru raunveruleg hagsmunamál fyrirtækja í landinu og heimila og menn hafa af þessu miklar áhyggjur.

Að endingu langar mig til að fá að vitna í niðurlagsmálsgrein umsagnar Sambands garðyrkjubænda þar sem segir, með leyfi forseta:

„Það er vandséð hvers vegna íslensk stjórnvöld leggja áherslu á að innleiða evrópskt regluverk vegna orkumála sem einvörðungu er sagt gilda fyrir sameiginlegan orkumarkað, þ.e. gildi í raun ekki fyrir Ísland nema það sé tengt raforkukerfi annars lands. Fyrir því skortir efnisleg rök.“

Þetta er einmitt kjarni málsins. Fyrir þessu skortir efnisleg rök. Það er bara þannig að þann rökstuðning sem okkur hefur verið boðið upp á í þessari umræðu af fylgismönnum innleiðingar þriðja orkupakkans skortir efnisleg rök fyrir því að tengja landið (Forseti hringir.) hinum evrópska orkumarkaði með þeim hætti sem lagt er upp með í málsmeðferðinni.