149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:39]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar til að þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir ræðuna í þessari ræðuseríu, ef svo má að orði komast: Og hvað svo? Það er alveg hárrétt og ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni og þá náttúrlega efnislegri umsögn Sambands garðyrkjubænda um að hér vanti alveg efnisleg rök. Hér hafa fylgismenn innleiðingar orkupakkans hlaupist frá verkum og skorast undan því að taka málefnalega umræðu um það. Þó hafa þau rök sem teflt hefur verið fram verið að uppistöðu til hrópandi mótsagnir, þ.e. talað er um að allt frá því að raforkuverð muni ekki hækka í að það muni beinlínis lækka, en fyrir því skortir efnisleg rök. Hér hefur því verið haldið fram að þetta sé algjört núll-mál en núll-málið er samt svo mikilvægt að það hefur forgang á öll önnur mál sem eru algjör þjóðþrifamál þrátt fyrir að núll-málið hljóti að geta beðið ef það er núll-mál. Ég held að það leiði af sjálfu sér.

Svo hefur því verið haldið fram að þetta sé algjörlega skothelt því að við séum með svo góða fyrirvara en á sama tíma hefur verið sýnt fram á það með efnislegum rökum og tilvitnun í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið að um fyrirvara er bara hreinlega ekki að ræða.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hann sé mér (Forseti hringir.) sammála í því að það sem hefur verið teflt fram hér séu að uppistöðu til (Forseti hringir.) hrópandi mótsagnir hjá fylgismönnum innleiðingar orkupakkans.