149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:42]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Þór Þorvaldssyni fyrir andsvarið. Þetta er áhugaverður punktur og spurning og ég held að ekki sé hægt að segja annað en að mótsagnirnar séu úti um allt í málflutningi stuðningsmanna innleiðingar þriðja orkupakkans. Byrjum bara á þeirri augljósu mótsögn, að annars vegar sé ekkert í málinu en hins vegar skuli allt bíða þar til málið er útrætt svo hægt sé að klára það núna og enginn samningsflötur eða samtalsflötur á neinu öðru. Það er eitthvað sem gengur ekki upp í þeirri nálgun. Ef ekkert er í málinu er það ekki þannig að meira að segja sérstök áhugamál Vinstri grænna eins og kynrænt sjálfræði fást ekki rædd á hinu háa Alþingi. Það er eitthvað skrýtið við það.

Svo er verðið. Ég er eiginlega ekki enn þá búinn að átta mig alveg á hvort hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir var hreinlega að segja brandara, reyna að gera gys, í Morgunblaðinu í morgun þar sem hún talaði um að allt benti til þess að innleiðing þriðja orkupakkans myndi sennilega lækka raforkuverð. Öll rök bentu til þess. Það setur þetta í allt annað samhengi þegar bunan hefur staðið upp úr þingmönnum eins og hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur um að hér sé ekkert að varast, innleiða skuli þetta hið snarasta og helst skuli taka réttinn af þingmönnum til að tjá sig um málið svo hægt verði að klára málið sem fyrst og taka þá upp umræðu um kynrænt sjálfræði, sem er væntanlega það næsta á listanum.

Þó að (Forseti hringir.) ég nefni bara þetta tvennt get ég komið inn á fleiri mótsagnakennd atriði í seinna andsvari mínu. Þar er af nógu að taka.