149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:45]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ef ekki væri fyrir það að hv. þingmaður og varaforseti Alþingis, Bryndís Haraldsdóttir, virtist hafa sérstakan áhuga á því að svipta okkur, efasemdarmenn um innleiðingu þessa orkupakka, málfrelsinu hér á hinu háa Alþingi væri auðvitað skynsamlegast að líta á þetta sem einhvers lags tilraun til að segja brandara. Í fljótu bragði man ég ekki eftir vel heppnuðum brandara frá hv. þingmanni þannig að ég held að henni sé það ekki eðlislægt og ég held að við verðum að ganga þannig út frá því að hún sé raunverulega að meina það sem hún segir og það sem hún skrifar. Fyrst hvað varðar að hefta málfrelsi okkar, efasemdarmannanna, er það auðvitað forkastanleg afstaða frá varaforseta Alþingis. Horfum næst til þeirrar furðuveraldar sem hún teiknar upp í þessari blaðagrein sinni um að allt bendi til þess að verð muni lækka. Hún er sennilega ein þingmanna í sínu draumalandi, algjörlega úr tengslum (Forseti hringir.) við raunveruleikann í þessu máli.

(Forseti (GBr): Forseti minnir hv. þingmenn á rétt ávarpsorð þegar vísað er til samþingsmanna.)