149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:49]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð að viðurkenna að mér hafði ekki dottið í hug að skoða þann fjölda heimila sem nýta sér raunverulega það svigrúm sem er undir núverandi regluverki til að skipta um orkusala, að það séu 370 af sirka 140.000 heimilum í landinu. Ég verð að viðurkenna að það er ekki mikil eftirspurn eftir þessum miklu úrræðum hvað neytendavernd varðar sem er verið að flagga í þessari tillögu sem einu af lykilatriðunum. Þetta er eiginlega bara ja, það jaðrar við að maður geti í samhengi hlutanna sagt að það nýti sér enginn þessar heimildir, þeir eru svo fáir. Þetta er alveg ótrúlegt og áhugavert að hv. þingmaður hafi vakið athygli á þessu. Ég varð svo hissa á þessu að ég er búinn að gleyma spurningunni. (BirgÞ: Ja, hún var bara einmitt um að greina þetta nánar…)

Já, og síðan þessi framsetning þingmanna að draga þetta fram sem eitt lykilatriði, eitt lykilhagsmunaatriði í málinu, sem kalli á þessa hröðu og klúðurslegu innleiðingu regluverksins, að það sé neytendavernd og gegnsæi, tækifæri til að skipta um raforkusala, sem hér um bil enginn virðist nýta sér. Í hverju felst gegnsæið? Ég veit það ekki. Fleiri reikningum frá fleiri aðilum? Ég þekki það ekki. Það væri kannski ágætt ef einhver þekkir til sem gæti frætt mig um þetta mjög svo merkilega gegnsæi. Ég gef mér ef heimildin til að skipta um raforkusala er stóra málið hvað neytendaverndina varðar þá vona ég að það sé eitthvað burðugra (Forseti hringir.) sem snýr að gegnsæisrökunum.