149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:53]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég leysi þetta í mínu heimilisbókhaldi með því að borga bölvaða orkureikningana, greini þá ekki mikið, það er betra fyrir sálartetrið.

Ég held að það verði áhugavert og kannski svona hluti af því sem við ættum kannski að skoða hér næsta klukkutímann eða tvo ef flötur er á, að reyna að átta okkur á hvað það er í gögnum málsins sem er kallað röksemd fyrir þessu aukna gegnsæi og að hvaða leyti það á að bæta kjör fyrirtækja og einstaklinga og vernda hagsmuni þeirra.

Ég verð að viðurkenna að ég hef bara misst af því efnisatriði í framsögu hæstv. ráðherra í upphafi og síðan í nefndaráliti (Forseti hringir.) framsögumanns nefndarálits. En það er full ástæða til að skoða (Forseti hringir.) hvort þar sé eitthvað sem burður er í.