149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:54]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Enn bætist í þær upplýsingar sem hér koma fram um þetta mál. Það er alveg makalaust. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni, fyrir þá ræðu sem hann flutti.

Ég hef haft nokkrar áhyggjur af þeim efasemdum sem fram hafa komið við orkupakkann í umsögnum. Ég hef tekið mjög alvarlega t.d. afstöðu ASÍ til þessa gjörnings, en ég verð að viðurkenna að ég hef haft einna mestar áhyggjur af samtökum grænmetisbænda, þ.e. garðyrkjubændum. Ég held ég muni rétt að hinn skeleggi formaður þeirra hafi sett fram í viðtali í blaði fyrir nokkrum vikum eða mánuðum að þriðji orkupakkinn sé líklegur til að ganga af garðyrkjunni dauðri.

Þá spyr maður: Er það svo að verð á raforku eigi eftir að lækka? Eftir því sem sagt er, sem maður hefur náttúrlega enga trú á. En ég hef miklar áhyggjur af því að þetta mál komi illa við garðyrkju, eins og ég sagði í gær eða fyrradag, þetta rennur svolítið saman, þegar hér var sérstök umræða um vöxt og viðgang garðyrkjunnar og það stóð upp úr öllum, skiljanlega og að góðu, að menn vildu veg garðyrkjunnar sem mestan. En á sama tíma eru menn að keyra í gegn þingsályktun sem mun væntanlega gera mönnum alla vega mjög erfitt fyrir að reka. (Forseti hringir.) Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður hefur skoðun á því hvernig þetta fer ekki saman?